Saga Aðalgreinar: Saga Íslands og Heiti yfir Ísland Ísland var, samkvæmt Íslendingabók Ara fróða, fyrst numið af norskum og keltneskum (skoskum og írskum) landnemum undir lok níundu og tíundu aldar. Þar var næstelsta (og það elsta sem enn er starfandi), þjóðþingið, Alþingi, stofnað árið 930. Ísland var ekki sett undir erlend ríki fyrr en næstum fjórum öldum eftir að það var fyrst numið. Þá fór svo að Noregskonungur náði landinu undir sína krúnu (1262). Síðar varð Ísland svo hluti af danska ríkinu árið 1380. Ísland fékk stjórnarskrá og takmarkaða heimastjórn árið 1874 á þjóðhátíð í tilefni af 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar (þar sem núverandi þjóðsöngur landsins, Lofsöngur var frumfluttur), fullveldi fylgdi í kjölfarið árið 1918. Danski konungurinn var sameiginlegur þjóðhöfðingi Danmörkur og Íslands til ársins 1944, þegar lýðveldið var stofnað. [breyta] Stjórnmál Aðalgrein: Íslensk stjórnmál Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Framkvæmdavaldið liggur hjá forseta og ríkisstjórn. Æðsti maður ríkisstjórnar er forsætisráðherra. Ríkisstjórnin ber ábyrgð gagnvart Alþingi, sem er handhafi löggjafarvaldsins ásamt forseta. Dómsvald er í höndum dómstóla; æðsti dómstóll landsins er Hæstiréttur. Forseti Íslands er þjóðhöfðingi landsins og er þjóðkjörinn í beinni kosningu allra kjörbærra manna. Kjörtímabil hans er 4 ár. Forseti er ábyrgðarlaus á ríkisstjórnarathöfnum og lætur ráðherra framkvæma vald sitt. Hann veitir formönnum stjórnmálaflokka umboð til stjórnarmyndunar eftir kosningar til Alþingis og skipar ráðherra en oftast er þessu ferli í raun stýrt af stjórnmálaflokkunum sjálfum, aðeins þegar þeir geta ómögulega komist að niðurstöðu sjálfir nýtir forsetinn sér þetta vald og skipar sjálfur ríkisstjórn. Þetta hefur þó ekki gerst í sögu lýðveldisins en gerðist 1942 þegar Sveinn Björnsson, þáverandi ríkisstjóri Íslands, skipaði utanþingsstjórn. Forseti Íslands hefur málskotsrétt gagnvart þinglögum samkvæmt stjórnarskrá og ber þá að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu en lögin taka samt gildi, þangað til þau eru afnumin eða staðfest með þjóðaratkvæði.[1] Núverandi forseti er Ólafur Ragnar Grímsson, sem tók við embættinu árið 1996. Hann nýtti sér málskotsréttinn fyrstur forseta á Íslandi, þegar hann neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin árið 2004. Alþingi, löggjafarþing Íslands, starfar í einni deild. 63 þingmenn þess eru kjörnir hlutfallskosningu í 6 kjördæmum. Kjörtímabilið er 4 ár en getur verið styttra ef það kemur til þingrofs en vald til að rjúfa þing liggur hjá ríkisstjórninni. Ráðherrar eiga einnig sæti á Alþingi en hafa ekki atkvæðarétt nema þeir séu einnig þingmenn en sú er reyndar venjan. Alþingi velur sér forseta til að hafa yfirumsjón með fundum þess, núverandi forseti Alþingis er Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir. Ríkisstjórnir á Íslandi eru nánast ávallt samsteypustjórnir tveggja eða fleiri flokka en einnig eru dæmi til um minnihlutastjórnir, einkum og sér í lagi vegna þess að enginn flokkur hefur hlotið hreinan meirihluta á þingi, í það minnsta ekki frá endurreisn lýðveldis. Núverandi ríkisstjórn er samsteypustjórn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Samfylkingar undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. [breyta] Skipting í stjórnsýsluumdæmi [breyta] Kjördæmi Aðalgrein: Kjördæmi Íslands Íslandi er skipt upp í 6 kjördæmi sem kjósa sína fulltrúa á Alþingi. [breyta] Sveitarstjórn Aðalgrein: Sveitarfélög á Íslandi Íslandi er skipt upp í 104 sveitarfélög sem eru mikilvægustu stjórnsýslueiningar landsins og hafa víðtæk völd á sviði skólamála, skipulags, samgangna og félagsmála. [breyta] Sýslur Aðalgrein: Sýslur á Íslandi Íslandi hefur frá fornu fari verið skipt upp í sýslur til umboðsstjórnar. Hinar gömlu landfræðilegu sýslur eru ekki lengur formlegar stjórnsýslueiningar á Íslandi, sýslumenn eru enn þá við lýði en umdæmi þeirra fylgja ekki alltaf gömlu sýsluskiptingunni. [breyta] Landafræði Samsett gervihnattarmynd af Íslandi. Aðalgrein: Landafræði Íslands Ísland er staðsett á heitum reit á Atlantshafshryggnum. Það er 102.800 ferkílómetrar að stærð. Þar eru mörg virk eldfjöll og ber þar helst að nefna Heklu (1491m). Um það bil 10% eyjarinnar er undir jöklum. Á Íslandi eru hverir víða, og gnótt jarðhita færir íbúunum heitt vatn, sem meðal annars er notað til húshitunar. Ísland er önnur stærsta eyja Evrópu, á eftir Bretlandi. Eyjan er vogskorin, og flestir bæir standa við firði, víkur og voga. Helstu þéttbýlisstaðir eru höfuðborgin Reykjavík, Keflavík, þar sem einn af alþjóðlegum flugvöllum landsins er staddur, og Akureyri. Ísland liggur á tveimur jarðskorpuflekum, Norður-Ameríkuflekanum og Evrasíuflekanum. Landið telst sögulega til Evrópu. [breyta] Efnahagsmál Aðalgrein: Efnahagur Íslands Efnahagur þjóðarinnar byggir enn að talsverðu leyti á fiskveiðum, sem afla nær 40% útflutningstekna og veita 8% vinnandi manna störf. Þar sem aðrar náttúruauðlindir skortir (fyrir utan jarðhita og fallvötn til virkjunar), er efnahagslíf á Íslandi viðkvæmt og háð heimsmarkaðsverði á fiski og sjávarafurðum. Auk þess geta minnkandi fiskstofnar í efnahagslögsögu landsins haft töluverð áhrif á sveiflur í efnahagslífinu og heimsmarkaðsverð á áli og kísilgúri sem eru stærstu útflutningsvörur Íslendinga á eftir sjávarafurðum. Stjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, sat við stjórnartaumana frá 1995 til 2007. Hún hafði á stefnuskránni að draga úr ríkisumsvifum og einkavæða ríkisfyrirtæki. Ríkisútgjöld, sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, hafa þó vaxið síðustu ár. Núverandi ríkisstjórn er andvíg inngöngu í Evrópusambandið. Fjölbreytileiki í efnahagslífinu hefur aukist undanfarna tvo áratugi. Ferðaþjónusta verður æ fyrirferðameiri, og reyna Íslendingar að laða til sín útlendinga með auglýsingum um hreina og ómengaða náttúru og öflugt næturlíf. Nokkuð dró úr hagvexti á árunum 2000 til 2002, en árið 2002 var hann neikvæður um 0,6%, frá 2003 hefur hagvöxtur hins vegar verið drjúgur en efnahagur í samanburði við nágrannalönd einkennst af óstöðugleika. [breyta] Lýðfræði Aðalgrein: Lýðfræði Íslands Íslendingar eru í megindráttum norræn þjóð. Landið byggðist upphaflega norrænum mönnum, einkum frá Noregi,Svíþjóð ,Danmerkur og Keltum frá nýlendum víkinga á Bretlandseyjum og Íslendingar hafa í gegnum tíðina átt mest samskipti við helstu fiskveiðiþjóðir á Norður-Atlantshafi. Til er kenning um að Íslendingar séu að uppruna sérstakur þjóðflokkur, aðgreindur frá öðrum þjóðflokkum á norðurlöndum („Herúlakenningin“). Á síðari tímum hafa ýmsar kenningar um uppruna þjóðarinnar verið settar fram með erfðafræðilegum rökum. Þá er talað um að flestar konur sem hingað komu hafi verið keltneskar (flestar ambáttir) en karlarnir að miklu leyti norrænir. Íbúafjöldi landsins sveiflaðist á milli um 30.000 og 80.000 við hefðbundinn efnahag í bændasamfélagi fyrri alda. Á 19. og 20. öld hefur Íslendingum fjölgað nokkuð ört og nú eru íbúar landsins tæplega 320.000 auk nokkurra þúsunda af íslenskum uppruna sem ekki eru búsett á Íslandi. Árleg fólksfjölgun mælist um 2,2%.[2] Á Íslandi er töluð íslenska, sem er norrænt tungumál, og flestir íbúar landsins eru í hinni evangelísk-lúthersku þjóðkirkju. [breyta] Innflytjendur Mikil fjölgun hefur verið á erlendum ríkisborgurum á Íslandi en árið 2005 fjölgaði þeim um 29,5% og árið 2006 var fjölgunin 34,7%.[3] Árið 2007 voru erlendir ríkisborgarar 18.563 talsins (6% af íbúum Íslands), og þann 1. janúar 2008 voru 21.434 erlendir ríkisborgarar skráðir (6,8% af íbúum Íslands).[3] Það er 15,5% fjölgun árið 2007. Hlutfall erlendra ríkisborgara af heildarmannfjölda Íslands er nú hærra en annars staðar á Norðurlöndum, en árið 2006 var það næst hæst í Svíþjóð eða um 5,4%.[3] Konur voru jafnan fjölmennari í hópi erlendra ríkisborgara til árins 2003, en síðan 2004 hafa karlar verið fjölmennari en konur. Í árslok 2007 voru karlar með erlent ríkisfang 8,1% allra karla en konur 5,5% allra kvenna.[3] Samkvæmt viðhorfskönnun sem var gerð árið 2009 meðal um 800 innflytjenda kom fram að dræm íslenskukunnátta hamlaði þeim helst í því að nýta menntun sína í starfi.[4] Saga íslensku Íslenska á rætur að rekja til máls norskra landnámsmanna á 9. öld. Á þeim tíma sem hefur liðið hafa orðið talsverðar breytingar á tungumálinu, einkum á orðaforða og framburði, en lítt á málfræði, eins og kemur fram að neðan. Breytingar þessar, einkum á orðaforða, má rekja til breyttra lifnaðarhátta, breytinga á samfélaginu, nýrrar tækni og þekkingar, sem og áhrifa annarra tungumála á íslensku, einkum ensku og dönsku. Til hægðarauka er sögu íslenskunnar skipt í þrjú skeið: fornmál til um 1350, miðmál frá 1350 til um 1550 (eða 1600) og nýmál frá lokum miðmáls. Íslenska hefur 11 sérhljóða: a, á, e, é, u, ú, i, í, o, ó, ö. Af þeim eru 3 tvíhljóðar: á (aú), é (íe) og ó (oú) auk au (öí), ei og ey (eí). Samhljóðar eru 16. [breyta] Breytingar Íslenskt ritmál hefur lítið breyst síðan á 11. öld með þeim afleiðingum að Íslendingar geta enn í dag – með erfiðismunum – lesið forn rit á borð við Landnámu, Snorra-Eddu og Íslendingasögurnar. Samræmd stafsetning, og þó einkum nútímastafsetning, auðveldar lesturinn þó mikið, auk þess sem orðaforði þessara rita er heldur takmarkaður. Meiri breytingar hafa orðið á framburði, svo miklar að Íslendingur 20. aldar myndi trúlega eiga í nokkrum erfiðleikum með að skilja Íslending 13. aldar, gætu þeir talað saman. Helstu breytingar á málinu ná því til orðaforða og framburðar, en minni breytingar hafa orðið á málfræði. (Sjá nánar í sögu íslenskunnar). Ýmsar ástæður eru fyrir því hversu vel málið hefur varðveist. Hefðbundna skýringin er auðvitað einangrun landsins, en líklega hefur fullmikið verið gert úr því og er sú skýring ein tæpast fullnægjandi. Önnur ástæða sem oft er nefnd er sú að málið hafi varðveist í skinnhandritunum, hvort sem var um afþreyingarbókmenntir að ræða eða fræði. Handritin hafi verið lesin og innihald þeirra flutt fyrir þá sem ekki voru læsir, þannig hafi mál þeirra varðveist og orðaforði handritanna haldist í málinu. Enn fremur hafi lærðir Íslendingar skrifað að miklu leyti á móðurmálinu, allt frá því að Ari fróði og Fyrsti málfræðingurinn skráðu sín rit, þess vegna hafi latínuáhrif orðið minni en víða annars staðar. Kirkjunnar menn á Íslandi voru líka fljótir að tileinka sér aðferðir Marteins Lúthers og Biblían var snemma þýdd á íslensku. Biblíur og önnur trúarrit voru því snemma til á íslensku á helstu fræðasetrum landsins og prestar boðuðu Guðs orð á íslensku. Þessa kenningu má helst styðja með því að bera okkur saman við þjóðir sem ekki áttu Biblíu á eigin tungu, til dæmis Norðmenn, en þeir notuðust við danska Biblíu. Orsakir þeirrar þróunar sem varð á íslensku verða seint útskýrðar til hlítar en þeir þættir sem nefndir eru hér að ofan hafa allir haft einhver áhrif. Margir Íslendingar telja íslenskuna vera „upprunalegra“ mál en flest önnur og að hún hafi breyst minna. Það er ekki alls kostar rétt og má í því sambandi nefna að íslenskan hefur einungis fjögur föll af átta úr indóevrópska frummálinu, á meðan flest slavnesk mál hafa sex föll og pólska sjö. Þýska hefur einnig fjögur föll eins og íslenska og varðveitt eru rit á fornháþýsku sem eru mun eldri en íslensku handritin eða frá áttundu öld. Í Grikklandi er enn töluð gríska, rétt eins og fyrir þrjú þúsund árum og svo má lengi telja. Grikkir geta þó ekki skilið forngrísku eins og Íslendingar skilja texta á forníslensku, því breytingarnar voru of miklar milli forn-, mið- og nýgrísku, vegna ýmissa mállýskna sem höfðu áhrif hver á aðra. Öll þessi mál eiga það þó sameiginlegt að hafa breyst að einhverju leyti og er íslenskan þar engin undantekning. Frá fornmáli til nútímamáls hvarf tvítalan, eða réttara sagt: tvítala varð fleirtala og fleirtalan varð hátíðlegt mál. Daganöfnin breyttust (fyrir áhrif frá Jóni Ögmundarsyni Hólabiskupi) ólíkt því sem var í öðrum germönskum málum, meira að segja færeyskunni. Gamla íslenskan hafði raddað blísturshljóð (z), sem afraddaðist og styttust forliggjandi sérhljóðar, samanber Özur -> Össur, Gizur -> Gjissur. Mörg lokhljóð önghljóðuðust, samanber mik — mig, ek - ég. S urðu að errum, samanber vas/es — var/er og gerðist þettu mun fyrr en önghljóðun lokhljóðana sem hefur átt sér stað um fimtánhundruð því einungis elstu Íslendingasögurnar varðveita blísturshljóðin og það hefur því gerst ellefu til tólf hundruð. Karlmannsnöfn sem enda -ar enduðu flest ef ekki öll -arr sbr - Gunnar/Hreiðar/Garðar/Einar -- Gunnarr/Hreiðarr/Garðarr/Einarr. [breyta] Málfræði Aðalgrein: Íslensk málfræði Orðflokkar í íslensku Orðflokkur Dæmi Hlutverk Nafnorð Stóri fuglinn hoppar til hins merka manns sem stendur í garðinum. Hann er með fræ handa fuglinum. Að tilgreina einstaka hluti, eða flokka hluta, jafnt raunverulega sem ímyndaða. Sagnorð Stóri fuglinn hoppar til hins merka manns sem stendur í garðinum. Hann er með fræ handa fuglinum. Að gefa til kynna aðgerð eða atburð. Lýsingarorð Stóri fuglinn hoppar til hins merka manns sem stendur í garðinum. Hann er með fræ handa fuglinum. Að lýsa einhverjum hlut nánar. Oftast notað með nafnorði. Fornöfn Stóri fuglinn hoppar til hins merka manns sem stendur í garðinum. Hann er með fræ handa fuglinum. Vísa til nafnorðs sem þegar hefur verið nefnt eða persónu sem er þekkt. Sum fornöfn er hægt að nota í stað nafnorða án þess að þau vísi til nafnorðs sem þegar hefur verið nefnt. Greinir Stóri fuglinn hoppar til hins merka manns sem stendur í garðinum. Hann er með fræ handa fuglinum. Að gera nafnorð ákveðin. Greinir getur verið viðskeyttur eða settur fyrir framan nafnorð sem sér orð. Töluorð Sautján stórir fuglar hoppa til hinna þriggja merku manna sem standa í garðinum. Þeir eru með tvo poka af fræjum handa fuglunum. Gefa til kynna fjölda eða magn. Smáorð Forsetning Stóri fuglinn hoppar til hins merka manns sem stendur í garðinum. Hann er með fræ handa fuglinum. Hafa áhrif á merkingu fallorðs í setningu. Atviksorð Hann fór upp stigann og inn í herbergið en hún fór niður stigann og út. Hann les mjög illa. Hún las ekki vel. Geta staðið með sögnum, lýsingarorðum og öðrum atviksorðum og þannig lýst þeim betur. Nafnháttarmerki Stóri fuglinn er að hoppa til hins merka manns sem stendur í garðinum. Hann er að gefa öðrum fuglum fræ. Nafnháttarmerkið er orðið „að“ á undan sagnorði í nafnhætti. Sögn í nafnhætti er án tíðar og endar oftast á „a“, þótt ýmis sagnorð endi á öðru en -a: (að abbast, að ferðast, að þvo, að sjá...). Samtenging Stóri fuglinn hoppar til hins merka manns sem stendur í garðinum og er með fræ handa fuglinum. Tengir saman einstök orð eða setningar til að mynda málsgrein. Skiptist í aðaltengingar og aukatengingar. Upphrópanir Ó, hve fagur er fuglinn! – Sýna undrun, hrifningu, hræðslu, gleði, eða reiði. [breyta] Mállýskur Ýmis svæðisbundin afbrigði mynduðust í málinu, þrátt fyrir hinar litlu breytingar, en deildar meiningar eru um hvort sá munur geti kallast mállýskumunur. Hingað til hefur yfirleitt verið einblínt á framburðarmun þó einnig hafi einhver munur verið á orðanotkun. Málvöndunarmenn á fyrri hluta tuttugustu aldar gengu hart fram í að útrýma flámæli, einkum vegna þess að það var talið geta raskað samræmi milli talmáls og ritmáls. Skólarnir voru meðal annars notaðir í þeim tilgangi. Mállýskumunur hefur dofnað talsvert á Íslandi á tuttugustu öld og sumar framburðarmállýskurnar eru nánast horfnar úr málinu. Helstu íslensku framburðarmállýskurnar eru (voru) skaftfellskur einhljóðaframburður, vestfirskur einhljóðaframburður, harðmæli og raddaður framburður, ngl-framburður, bð- og gð-framburður, hv-framburður og rn- og rl-framburður. [breyta] Íslenska utan Íslands Íslenska er töluð af áhugamönnum og fólki af íslensku bergi brotið víðsvegar um heim. Mest var af íslenskumælandi fólki í Kanada (t.d. í Gimli í Manitoba), og Bandaríkjunum (til dæmis Norður-Dakota) en þangað fluttust stórir hópar Íslendinga (kallaðir Vesturfarar) við lok 19. aldar, en íslenskukunnátta er þar nú lítil meðal yngra fólks. Svo er að nefna þá er leggja stund á nám á íslensku erlendis, til dæmis þá sem læra íslensku í gegnum kennsluvef Háskóla Íslands,[1] sem kallast Icelandic Online og sem erlendir aðilar tóku þátt í, meðal annarra háskóli í Wisconsin í Bandaríkjunum. [breyta] Meginland Frakklands (fr. France métropolitaine) liggur í Vestur-Evrópu, en ríkinu tilheyra einnig landsvæði í Norður-Ameríku, á Antillaeyjum, í Suður-Ameríku, í Indlandshafi, í Kyrrahafi bæði norðan og sunnan miðbaugs og á Suðurskautslandinu. Landamæri Frakklands í Evrópu eru 2970 km að lengd og snúa að eftirtöldum átta ríkjum: Spáni (650 km), Belgíu (620 km), Sviss (572 km), Ítalíu (515 km), Þýskalandi (450 km), Lúxemborg (73 km), Andorra (57 km) og Mónakó (4,5 km). Í Suður-Ameríku á Franska Gíana landamæri að Brasilíu (580 km) og Súrínam (520 km). Saint-Martin-ey í Antillaeyjaklasanum skiptist milli Frakklands og Hollands. Loks gera Frakkar tilkall til svonefndrar Terre Adélie á Suðurskautslandinu en það svæði er landlukt og umkringt af landsvæði sem Ástralar gera tilkall til. Stjórnsýsla á þessum yfirráðasvæðum Frakklands er með ýmsum hætti og ganga þau eftir því undir fjölbreytilegum nöfnum, allt frá „handanhafssýslu“ til „handanhafssvæðis“. Meginland Frakklands einkennist af mjög fjölbreyttu landslagi, allt frá flatlendinu með norður- og vesturströndinni að fjallakeðjunum í suðaustri (Ölpunum) og suðvestri (Pýreneafjöllum). Í frönsku ölpunum er hæsti fjallstindur í vestanverðri Evrópu, Mont Blanc, sem er talinn 4810 m. Í landinu er víða fjalllendi sem er eldra að uppruna, til að mynda miðfjalllendið (Massif central), Júrafjöll, Vogesafjöll og loks Ardennafjöll sem eru bæði klettótt og vaxin þéttum skógi. Frakkar njóta þess einnig að eiga mikið kerfi vatnsfalla en helstu fljótin eru Leira, Rón (kemur upp í Sviss), Garonne (kemur upp á Spáni), Signa og nokkur hluti árinnar Rín, en einnig Somme og Vilaine. Meuse er eina stórfljótið í Frakklandi sem hefur ekki verið aðlagað skipaumferð. Vegna mikils fjölda franskra yfirráðasvæða um allan heim sem snúa að hafi ræður Frakkland yfir annarri stærstu efnahagslögsögu heims á eftir Bandaríkjunum, samtals mælist hún 11.035.000 km². [breyta] Saga Frakkland nútímans tekur yfir svipað svæði og hið forna hérað Gallía þar sem Gallar bjuggu en þeir voru keltnesk þjóð. Á fyrstu öld fyrir Krist var Gallía innlimuð í Rómaveldi og tóku íbúarnir upp latneska tungu og menningu. Kristni skaut rótum í landinu á annarri og þriðju öld eftir Krist. Á fjórðu öld tóku germanskir ættflokkar að streyma yfir Rín sem markaði austurlandamæri Gallíu. Í þeim hópi voru Frankar mest áberandi en af þeim er nafn Frakklands dregið. Samfelld tilvist Frakklands sem sérstaks ríkis er talin hefjast á 9. öld þegar Frankaveldi Karlamagnúsar skiptist í vestur- og austurhluta. Austurhlutinn náði þá yfir það svæði sem nú er Þýskaland og er þessi skipting oft einnig talin marka upphaf Þýskalands. Frakkland var konungsríki allt til ársins 1792 þegar lýðveldi var komið á í kjölfar frönsku byltingarinnar. Napóleon Bónaparte náði svo undirtökum í lýðveldinu og lýsti sjálfan sig keisara 1799. Napóleon lagði undir sig stóran hluta Evrópu með landvinningum og með því að koma skyldmennum til áhrifa í mörgum konungsríkjum þess tíma. Napóleon var settur af árið 1815 og lýðveldi var endurreist. Það var svo afnumið með öðru keisaraveldinu og því komið á aftur með þriðja lýðveldinu 1870. Í síðari heimsstyrjöldinni hernámu Þjóðverjar norðanvert Frakkland, en svonefnd Vichystjórn stýrði suðurhlutanum. Að stríðinu loknu var stofnsett svokallað fjórða lýðveldi sem varð loks fimmta lýðveldið með stjórnskipunarbreytingum sem samþykktar voru í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1958. Frakkland var meðal sigurvegara í fyrri og seinni heimsstyrjöldinni en hafði enga burði eftir stríðin til að viðhalda stórveldisstöðu sinni í heiminum. Eftir stríðið hafa tekist sættir með Frökkum og Þjóðverjum og hefur samvinna þessara þjóða verið kjarninn í stofnunum eins og Evrópusambandinu en Frakkar hafa verið hvað harðastir stuðningsmenn þess að auka Evrópusamstarfið á sviði stjórnmála, varnar- og öryggismála. [breyta] Stjórnsýslustig Héruðin 22 og sýslurnar 96 á meginlandi Frakklands. Stjórnsýslustig í Frakklandi eru mörg. Landið skiptist í 26 héruð (fr. régions) og liggja 22 þeirra á meginlandi Frakklands (eitt þeirra er eyjan Korsíka en hin 21 liggja á meginlandi Evrópu) en fjögur eru svonefnd „handanhafshéruð“ (fr. régions d'outre-mer). Héruðin skiptast síðan í 100 sýslur. Þær eru tölusettar (í stórum dráttum eftir stafrófsröð) og ráðast póstnúmer, skráningarnúmer ökutækja og fleira af því. Sýslunum er skipt í 342 svonefnd arrondissements en þau hafa enga kjörna fulltrúa og þjóna einvörðungu tæknilegu hlutverki í skipulagi ríkisstofnana. Arrondissements skiptast í 4.035 kantónur (fr. cantons) sem eru fyrst og fremst kosningakjördæmi. Loks skiptast arrondissements einnig í 36.682 sveitarfélög (fr. communes) með kjörinni stjórn. Héruð, sýslur og sveitarfélög kallast einu nafni „umdæmi“ (fr. collectivités territoriales), en það merkir að þau hafa á að skipa bæði kjörnum fulltrúum og framkvæmdavaldi ólíkt því sem gildir um arrondissements og kantónur. Til ársins 1940 voru arrondissements einnig umdæmi með kjörinni stjórn, en kosningar til þeirra lögðust af á tímum Vichy-stjórnarinnar og voru svo aflagðar samkvæmt stjórnarskrá fjórða lýðveldisins árið 1946. Upphaflega voru kantónurnar einnig umdæmi með kjörnum fulltrúum. Fjórar sýslnanna eru svonefndar „handanhafssýslur“ (fr. départements d'outre-mer) er falla saman við handanhafshéruðin fjögur. Þau eru fullgildur hluti Frakklands (og þar með Evrópusambandsins) og njóta þannig í flestum atriðum sömu stöðu og meginlandssýslur Frakklands. Auk héraðanna 26 og sýslnanna 100 tilheyra Frakklandi fjögur „handanhafsumdæmi“ (fr. collectivités d'outre-mer), eitt umdæmi sem sérstakar reglur gilda um (Nýja-Kaledónía) og eitt „handanhafssvæði“ (fr. territoire d'outre-mer). Handanhafsumdæmi og handanhafssvæði tilheyra Frakklandi sem ríki en ekki Evrópusambandinu og tollabandalagi þess. Á frönskum yfirráðasvæðum í Kyrrahafi er þannig enn í gildi svonefndur Kyrrahafsfranki, en verðgildi hans er tengt gengi evru. Í handanhafssýslunum (-héruðunum) fjórum var áður notaður franskur franki og nú evra. Auk þessa ráða Frakkar enn allmörgum eyjum í Indlandshafi þar sem byggð er ekki samfelld. [breyta] Mannfjöldi Íbúafjöldi í Frakklandi er um 63 milljónir (2006). Manntal fór fram með reglulegu millibili frá árinu 1801, en frá árinu 2004 hefur mannfjöldaskráin verið haldin óslitið. Fjölgun íbúa í Frakklandi er einhver sú mesta í Evrópu og stafar það bæði af tiltölulega hárri fæðingatölu og miklum fjölda innflytjenda. Engu að síður fjölgar öldruðum í Frakklandi hlutfallslega mjög ört vegna hækkandi meðalaldurs og sökum þess að fjölmennar kynslóðir eftirstríðsáranna eru nú farnar að bætast í þann hóp. Borgarsvæði í Frakklandi með 100 000 íbúum eða fleiri Mannfjöldaþróun milli áranna 1961 og 2003 (tölurnar eru fengnar frá FAO, 2005). Tölurnar gefa til kynna þúsundir íbúa. [breyta] Trúarbrögð Eins og í ýmsum öðrum Evrópuríkjum telst ekki við hæfi í Frakklandi að ríkið grennslist fyrir um trúarlíf þegnanna. Ýmsar sjálfstæðar stofnanir stunda þó slíkar rannsóknir. Meðal annars fer fram á þriggja ára fresti könnun á vegum stofnunarinnar CSA. Samkvæmt könnun frá árinu 2004, sem náði til úrtaks 18 068 Frakka, segjast 64,3 % kaþólskrar trúar en 27 % segjast vera guðleysingjar. Hlutfall katólskra hafði þá fallið úr 69 % á þremur árum. Þannig teljast um 30 milljónir fullorðinna Frakka katólskrar trúar, en 4 milljónir alls tilheyra öðrum trúarbrögðum, fyrst og fremst íslam og mótmælendakirkjum. Flestir hinna kaþólsku segjast ekki leggja rækt við trúna. Samkvæmt könnun á vegum stofnunarinnar IFOP, sem fram fór í apríl árið 2004, segjast 44 % Frakka ekki trúaðir. Árið 1947 var sá hópur ekki nema 20 % þjóðarinnar.